Innlent

HB Grandi segir upp 16 manna áhöfn á Vopnafirði

HB Grandi hefur sagt upp 16 manna áhöfn á ísfisktogaranum Brettingi sem gerður er út frá Vopnafirði. Skipið verður gert út fram í byrjun mars, meðan skipverjar vinna uppsagnarfrest sinn. Síðan verður skipinu lagt og fækkar þar með um eitt í flota fyrirtækisins því ekki er fyrirhugað að annað skip komi í staðinn.

Starfsmannastjóri HB Granda tilkynnti skipverjum á fundi í dag að reynt yrði eftir fremsta megni að finna þeim stað á öðrum skipum fyrirtækisins. Hluti starfsmannanna er búsettur á Vopnafirði en auk þessara 16 sem fengu uppsagnarbréf í dag eru fleiri sem hafa farið í staka túra með togaranum.

Aðalástæður breytinganna, að sögn Eggerts B. Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, eru niðurskurður í þorskkvótum og hagræðing innan fyrirtækisins, eftir samruna nokkurra fyrirtækja.

13 fastráðnir starfsmenn fengu uppsagnarbréf í dag og eiga rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þrír til viðbótar sem aðeins eiga rétt á mánaðar uppsagnarfresti fá uppsögn eftir tvo mánuði. Auk þessara voru einhverjir íhlaupamenn sem hafa farið túr og túr með skipinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×