Innlent

Frumvarpi breytt til að draga úr skerðingu bóta

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, og Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra kynntu í dag aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að draga úr áhrifum tekna lífeyrisþega á bætur. Gert er ráð fyrir að frumvarp um almannatryggingar og málefni aldraðra verði breytt í þremur atriðum vegna þessa. Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins.

Í fyrsta lagi er lagt til að lífeyrisþegar geti dreift fjármagnstekjum og tekjum af séreignarlífeyrissparnaði sem greiddur er út í einu lagi til þess að draga úr skerðingu bóta frá Tryggingastofnun ríkisins.

Í öðru lagi er lagt til að lífeyrisþegar geti valið á milli 300 þúsund króna frítekjumarks atvinnutekna og þess að láta 60 prósent af tekjum sínum koma til skerðingar við útreikning tekjutryggingar, en hvoru tveggja á að draga úr skerðingu bóta.

Í þriðja lagi tekur 300 þúsund króna frítekjumarkið gildi um áramót. Einnig er gert ráð fyrir að flýta gildistöku ákvæða um aðgreiningu á tekjum maka og lífeyrisþega um tvö ár, en þessi aðgreining miðast við að draga úr áhrifum tekna maka á bótagreiðslur lífeyrisþega.

Kostnaðurinn við breytinguna á árinu 2007 er um 275 milljónir króna en kostnaðurinn við að draga úr áhrifum tekna maka á bætur lífeyrisþegans og að flýta gildistöku breytingarinnar verður um 1200 milljónir króna á árunum 2007 til 2009.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×