Golf

Birgir Leifur í beinni á Sýn í fyrramálið

Birgir Leifur verður á fullu í Suður-Afríku fram að jólum
Birgir Leifur verður á fullu í Suður-Afríku fram að jólum Mynd/Eiríkur

Birgir Leifur Hafþórsson tryggði sér fyrir skömmu keppnisrétt á evrópsku mótaröðinni í golfi og hann verður í eldlínunni innan um marga af bestu kylfingum heims á tveimur mótum sem haldin verða í Suður-Afríku fyrir jól. Fyrra mótið hefst í fyrramálið og verður sjónvarpsstöðin Sýn með beinar útsendingar frá mótinu alla fjóra keppnisdagana.

Fyrra mótið sem Birgir Leifur tekur þátt í er Alfred Dunhill mótið sem fram fer dagana 7. - 10. desember og síðara mótið er Opna Airways mótið sem fram fer 14.-17. desember. Sýn mun fylgjast grannt með gangi mála á mótunum báðum og verður kastljósinu að sjálfsögðu beint eins vel að að Birgi Leifi og kostur gefst.

Birgir Leifur tryggði sér þátttökurétt á Evrópumótaröðinni með því að hafna í einu af 30 efstu sætunum á úrtökumótinu á San Roque á Spáni. Flestir þeirra sem tryggðu sér þátttökurétt á Evrópumótaröðinni á Spáni verða með í þessum tveimur mótum í Suður-Afríku.

Spennandi verður að fylgjast með Birgi kljást við bestu kylfinga Evrópu en meðal keppenda á Alfred Dunhill mótinu eru m.a. hinir heimsfrægir kylfingar á borð við Suður-Afríkumanninn Ernie Els og enski kylfingurinn Lee Westwood, sem var í Ryderliði Evrópu. Retief Goosen frá Suður-Afríku og Argentínumaðurinn Angel Cabrera eru meðal keppenda í Airways mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×