Innlent

Kárahnjúkavirkjun á kostnaðaráætlun

Stærsta fjárhagslega óvissuþætti Kárahnjúkavirkjunar var eytt með gegnumbroti risaborsins í gær og segja Landsvirkjunarmenn nú að virkjunin verði nokkurn veginn á kostnaðaráætlun. Frávik verði í mesta lagi eitt til tvö prósent.

Margir óvissuþættir fylgja risaframkvæmdum eins og gerð Kárahnjúkavirkjunar og erlendis eru mörg dæmi um að kostnaðaráætlanir slíkra verkefna hafi farið úr böndunum. Um tíma var mikil umræða um hvort sömuleiðis færi fyrir einstaka verkþáttum við Kárahnjúka. Þannig gekk allt á afturfótunum mánuðum saman í jarðgangavinnunni þegar borarnir lentu í erfiðum jarðlögum. Sprungur sem fundust undir stíflustæði Kárahnjúkastíflu kölluðu einnig á mikla umræðu um fjárhagslegar afleiðingar. Nú þegar búið er að rjúfa síðasta haftið í aðrennslisgöngunum og stíflan er að verða fullbúin telja Landsvirkjunarmenn sig vera komna á beinu brautina.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, segir að samkvæmt tölum sem kynntar hafa verið stjórninni sé nú búist við að verkið verði nokkurn veginn á kostnaðaráætlun og frávik verði plús eða mínus eitt til tvö prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×