Innlent

Um 16 þúsund erlendir ríkisborgarar starfandi á landinu

MYND/Vilhelm

Um 16 þúsund erlendir ríkisborgarar starfa hér á landi um þessar mundir samkvæmt svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins.

Fram kemur í svarinu að gera megi ráð fyrir að af þeim 9.000 erlendu ríkisborgurum sem voru starfandi hér á landi á síðasta ári séu um það bil 6.000 enn starfandi hér. Þá hafi um það bil tíu þúsund erlendir ríkisborgarar komið hingað til starfa frá 1. janúar 2006 til 1. október 2006.

Af þeim hafi nærri 2800 fengið tímabundið atvinnuleyfi og um 2.500 hafi verið skráðir sem nýir á innlendum vinnumarkaði hjá Vinnumálastofnun og sem ríkisborgarar frá nýju aðildarríkjunum að Evrópska efnahagssvæðinu.

Langflestir þeirra tíu þúsund erlendu ríkisborgara sem komið hafa til vinnu hér á landi á þessu ári eru frá Póllandi eða um sex þúsund, en þar á eftir koma Portúgalir (781) og Litháar (555).

Magnús spurði einnig hversu margir starfsmenn hefðu verið skráðir mánaðarlega á vegum starfsmannaleigna frá 1. janúar 2005 og segir í svarinu að 1.024 starfsmenn hafi verið skráðir á vegum starfsmannaleigna þegar svarið var unnið en þar af var 861 starfsmaður virkur í lok október.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×