Innlent

Framsóknarþingmaður gagnrýnir niðurskurð vegaframkvæmda

Ríkisstjórnin hyggst skera fimmhundruð milljónir króna af vegaframlögum á Vestfjörðum og Norðausturlandi á næsta ári og færa yfir á þarnæsta ár. Framsóknarþingmaðurinn Kristinn H. Gunnarsson gagnrýnir að enn eigi að seinka vegabótum hjá íbúum þeirra svæða sem búa við verstu vegi landsins.

Íbúar svæða sem búa við það að ófærir fjallvegir hindri för þeirra dögum og vikum saman til nágrannabyggða leggja eflaust betur á minnið en aðrir yfirlýsingar eins og þá sem samgönguráðherra gaf á dögunum um að stórátak væri hafið í vegamálum. Stjórnarþingmaðurinn Kristinn H. Gunnarsson vekur hins vegar athygli á því á heimasíðu sinni að í nýju frumvarpi leggi ríkisstjórnin til að frestað verði vegagerð á næsta ári fyrir 200 milljónir króna á Vestfjörðum og 300 milljónir á norðausturlandi.

Kristinn segir á heimasíðu sinni:

"Einkennileg röðun brýnna vegaframkvæmda birtist í nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar er lagt til að fresta framkvæmdum við vegabætur á Vestfjörðum og Norðausturhorni landsins, annars vegar nýjum vegi um Arnkötludal og Tröllatunguheiði milli Strandasýslu og Reykhólasveitar og hins vegar nýjum vegi um svonefnda Hófaskarðsleið á Melrakkasléttu. Fjárveitingar samtals 500 mkr. eru færðar til um ár, frá 2007 til 2008, 200 mkr. af Arnkötludal og 300 mkr. af Hófaskarðsleið. Í báðum tilvikum seinkar framkvæmdum, ef tillögur ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga. Og í báðum tilvikum er um að nauðsynlegar vegabætur á landssvæðum þar sem byggð stendur höllum fæti."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×