Innlent

Risaborar mætast á morgun

Framkvæmdamenn við Kárahnjúka bíða þess nú spenntir hvort tveir risaborar hitti hvor á annan, en þeim er ætlað að mætast undir Þrælahálsi á Fljótsdalsheiði innan tuttugu klukkustunda. Takist þeim að rjúfa síðasta haftið á morgun opnast fjörutíu kílómetra löng aðrennslisgöng sem ætlað er að flytja Jöklu úr Hálslóni yfir að stöðvarhúsi í Fljótsdal. Þrír risaborar hafa í tvö og hálft ár borað neðanjarðargöng sem hafa munu það hlutverk að flytja stórfljót Austurlands tugi kílómetra. Bor eitt lagði af stað frá fjallsbrún ofan stöðvarhússins í Fljótsdal og boraði 14,7 kílómetra en verkefni hans lauk í haust. Bor tvö var settur inn á miðri leið til að bora í átt að Hálslóni og á hann 10,3 kílómetra að baki. Bor þrjú hefur séð um legginn frá Hálslóni og er búinn með 14,6 kílómetra. Á morgun er búist við að sú stund renni upp að borar tvö og þrjú mætist. Búið er stöðva bor tvö og draga hann örlítið til baka svo bor þrjú geti klárað síðasta haftið en menn áætla að það gerist um tvöleytið á morgun. Þótt leysigeislatækni sé notuð til að stýra bornum rétta leið geta menn ekki verið vissir hvort hann hitti á réttan stað fyrr en þeir sjá hann birtast. Það munu því margir bíða spenntir eftir borkrónunni á morgun því mikið er í húfi; framkvæmdir upp á tvöhundruð milljarða króna yrðu í uppnámi ef borinn hefur farið ranga leið.

Borun aðrennslisganganna er síðasti stóri óvissuþátturinn í gerð Kárahnjúkavirkjunar og ef borarnir hittast á morgun virðist fátt geta komið í veg fyrir að raforkuframleiðsla hefjist þar næsta vor í þágu álvers á Reyðarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×