Innlent

Njörður fær Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna

MYND/GVA

Njörður P. Njarðvík, rithöfundur og fyrrverandi prófessor, hlaut í morgun Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna árið 2006 fyrir ómetanlegt starf til hjálpar munaðarlausum börnum í Afríku í gegnum hugsjónafélagið SPES. Verðlaunin voru afhent í Iðnó nú klukkan ellefu.

Verðlaunaféð, fjórar milljónir króna, verður nýtt til frekari uppbyggingar á heimilum fyrir munaðarlaus börn á vegum SPES. Þetta er í annað sinn sem Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna eru veitt en það var Íslensk erfðagreining sem stofnaði sjóðinn fyrir sex árum. Á þessum sex árum hefur nú alls verið úthlutað úr sjóðnum um 400 milljónum króna til margvíslegra verkefna.

Fram kemur í tilkynningu frá Velferðarsjóði að nú hafi verið úthlutað 11 milljónum króna úr sjóðnum að þessu sinni, þ.á.m. 1½ milljón króna til nýs stuðningsverkefnis fyrir drengi, sem eru ofvirkir eða með skyldar hegðunarraskanir, og tveimur milljónum til að styðja börn sem flosnað hafa upp úr skóla og vilja bæta grunnmenntun sína.

Auk þess fengu Hjálparstarf kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd hvort um sig eina milljón króna til að gleðja fyrir jólin börn sem búa við erfiðar aðstæður. Styrknum er ætlað að standa straum af fatakaupum fyrir börnin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×