Innlent

Rauðu nefin að verða uppseld

Rauð nef eru að verða uppseld í landinu, samkvæmt upplýsingum frá Unicef á Íslandi. Tuttugu þúsund rauð nef voru framleidd vegna söfnunar Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem fram fer í dag, og segir upplýsingafulltrúi samtakanna að þau hafi selst svo vel að nú sé orðið erfitt að fá þau.

Rauðu nefin hafa verið seld í verslunum Bónuss, 10-11, bensínstöðvum Essó og útibúum Glitnis síðustu tvær vikur og í mörgum verslunum 10-11 eru þau uppseld og hefur þurft að beina fólki í aðrar verslanir í leit að nefjum. Í Bónus, Essó og Glitni hefur salan einnig gengið vonum framar og fer hver að verða síðastur að næla sér í nef eftir því sem upplýsingafulltrúi UNICEF segir. Þá hafa fyrirtæki mörg hver keypt nef í hundraða tali og eru nefin löngu búin á skrifstofu UNICEF sem hefur sinnt þeirri eftirspurn.

Margar aðrar leiðir eru til að styrkja átakið. Á útvarpsstöðinni Bylgunni stendur yfir brandarakeppni í allan dag og dagskrá Stöð tvö í kvöld verður helguð átakinu með skemmtidagskrá og þar safnað heimsforeldrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×