Innlent

Ráðstöfunartekjur aukast um allt að 9% á næsta ári

Ráðstöfunartekjur fjölskyldu, með meðaltekjur og tvö börn, munu aukast um allt að níu prósent á næsta ári, vegna breytinga á skattkerfinu og samningsbundinna launahækkana. Tekjuskattur mun lækka, persónuafsláttur hækka og barnabætur verða greiddar með börnum allt til 18 ára aldurs.

Ríkisstjórnin lýsti því yfir í júní að hún myndi grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir uppsögn kjarasamninga nú í haust, eins og stefndi í vegna meiri verðbólgu en forsendur gildandi samninga höfðu gert ráð fyrir. Frumvarp sem byggir á þessari yfirlýsingu verður væntanlega að lögum í næstu viku. Samkvæmt því lækkar tekjuskattur ríkisins um eitt prósentustig og verður 22,75 prósent. Þá verða greiddar barnabætur með börnum til 18 ára aldurs í stað 16 ára áður og persónuafsláttur verður hækkaður, þannig að skattleysismörk hækka úr 79 þúsundum í 90 þúsund krónur á mánuði. Að auki verða gerðar breytingar á vaxtabótakerfinu, sem ekki verður farið út í nánar hér.

En skoðum hvernig þessar breytingar koma til með að virka fyrir tvær sams konar fjölskyldur með mismunandi tekjur, því enn skerðast bætur eftir tekjum. Í báðum dæmunum er gert ráð fyrir samningsbundnum launahækkunum milli ára.

Tökum fyrst fjölskyldu með tiltölulega lágar heildartekjur, eða 4,8 milljónir króna á ári, með tvö börn, annað 5 ára og hitt 16 ára. Hér hefur verið reiknað með samningsbundnum launahækkunum milli ára, eins og áður sagði. Þrátt fyrir lægri skattprósentu hækkar skatturinn í þessu dæmi um 1,2 prósent, en fyrir þessa fjölskyldu hækka barnabæturnar hins vegar um 29,8 prósent og ráðstöfunartekjurnar um 8,9 prósent. Þessi fjölskylda mun því hafa rúmlega 314 þúsund krónum meira á milli handanna á næsta ári en í ár.

Tökum þá dæmi af tekjuhærri fjölskyldu, með 9,6 milljónir í heildartekjur í ár. Skattgreiðslur hennar hækka um 2,3 prósent og barnabæturnar um 20 prósent, sem í þessu dæmi eru tæpar tíu þúsund krónur á ári. En vegna samningsbundinna launahækkana sem bætast ofan á, aukast ráðstöfunartekjur þessarar fjölskyldu um rúmar 513 þúsund krónur á næsta ári. Í þessum dæmum var tekið tillit til barnabótaauka sem greiddur er með börnum yngri en sjö ára. Útreikningar í þessari frétt eru úr samantekt sem Alþýðusambandið gerði fyrir fréttastofuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×