Innlent

Vísindamaður spáir hruni mannkyns vegna hlýnunar

Spá um hlýnun andrúmslofts 1960-2060
Spá um hlýnun andrúmslofts 1960-2060 MYND/NASA

Jörðin er komin með hitasótt, sem gæti þýtt átta stiga hlýnun loftslags og útrýmt lífi á stórum hluta hennar og milljörðum manna. Þannig hljóðar dómsdagsspá hins umdeilda vísindamanns, James Lovelocks, sem hefur skapraunað bæði loftslagssérfræðingum með Gaia kenningunni sinni svokölluðu, sem og umhverfisverndarsinnum með stuðningi sínum við kjarnorku.

Samkvæmt hlýnunarspá Lovelocks mun svona heit Jörð ekki geta framfleytt nema rúmlega 500 milljónum manna, eða tæplega tíunda hluta núverandi mannkyns. Við erum samt ekki öll dauðadæmd, segir Lovelock, og segist þrátt fyrir allt ekki sjá fyrir sér útrýmingu tegundarinnar. Hann segir að öll vistkerfi jarðar séu komin í slíkan vítahring, að þróunin verði ekki stöðvuð. Tilraunir til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda séu góðra gjalda verðar en tilgangslausar.

Viðtekin skoðun flestra vísindamanna núna gerir hins vegar ráð fyrir því, að með því að grípa strax til aðgerða, verði hægt að koma í veg fyrir allt að sex stiga hlýnun andrúmsloftsins, sem annars hefði orðið fyrir næstu aldamót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×