Innlent

Ríkið sýknað af kröfu Ásatrúarfélagsins

Íslenska ríkið var í dag sýknað, í Héraðsdómi Reykjavíkur, af kröfum Ásatrúarfélagsins um sambærilegar greiðslur í sinn hlut frá hinu opinbera og þjóðkirkjan fær. Allsherjargoði telur þó að um áfangasigur sé að ræða.

Samkvæmt lögum fær Ásatrúarfélagið sóknargjöld frá ríkinu líkt og aðrir þjóðkirkjusöfnuðir, önnur skráð trúfélög og Háskóli Íslands. Fjárhæðin reiknast þannig að fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri sem skráður er í viðkomandi trúfélag greiðist ákveðin upphæð. Í málatilbúningi Ásatrúarfélagsins er því hins vegar haldið fram að þjóðkirkjan og sjóðir hennar fái til viðbótar margar aðrar greiðslur samkvæmt fjárlögum og frá ráðuneytum. Þær upphæðir séu 30 % til viðbótar við sóknargjöldin.

Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði, segir að vegna þessa óréttlætis hafi félagsmönnum runnið blóðið til skyldunnar. Aðspurður hvort það sé ekki eðlilegt að í samfélagi þar sem ríki og kirkja séu eitt, njóti þjóðkirkjan fríðinda, bendir Hilmar á að í Noregi sitji önnur trúfélög við sama borð og þjóðkirkjan þegar kemur að fjárstuðningi frá norska ríkinu. Það sé sjálfsagt frelsi fyrir trúarfélög að fá styrk frá ríkinu.

Hilmar segir að hluti sýknudómsins í dag sé þó jákvæður fyrir Ásatrúarfélagið, því í dómsorði hafi komið fram að önnur trúfélög njóti ekki sama réttar og þjóðkirkjan. Það sé hins vegar ekki dóma að breyta því þar sem kveðið er á um slíkt í stjórnarskrá. Alþingi þurfi því að breyta lögunum. Ásatrúarfélagið ætlar ekki að láta hér við sitja, heldur áfrýjar málinu til Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×