Innlent

Deilt á vinnubrögð borgarstjórnar

Borgarstjóri situr beggja vegna borðsins í risaverkefni sem felur í sér uppbyggingu búsetuúrræða fyrir eldri borgara, segir fulltrúi Samfylkingarinnar og telur vinnubrögðin tortryggileg. Borgin hefur gert viljayfirlýsingu við hjúkrunarheimilið Eir og undrast Samfylkingin valið.

Í auglýsingu sem borgin sendi frá sér í sumar var óskað eftir samstarfsaðilum við byggingu þjónustuíbúða og miðstöðvar fyrir aldraða. 15 sóttu um og fól borgarráð Hrafnistu og hjúkrunarheimilinu Eir verkið, en borgarstjóri er stjórnarformaður Eirar. Samfylkingin telur að verkið hafi átt að bjóða út formlega.

Nýverið var síðan undirrituð viljayfirlýsing þar sem Eir er er einnig falið að sjá um þjónustu og rekstur menningarmiðstöðvar.

Í innkaupareglum Reykjavíkurborgar kveður á um útboðsskyldu varðandi rekstur, þjónustu og verklegar framkvæmdir. Ekki var talað um eignarhald eða rekstur þjónustu í auglýsingunni og telur samfylkingin að það stangist á við lög og reglur borgarinnar.

Stefán Jón Hafstsein borgarfulltrúa Samfylkingar segir að borgarstjóri hefði átt að víkja sæti strax í upphafi málsins, en ekki þegar Samfylkingin gerði athugasemd við málið.

Björn Ingi Hrafnsson formaður Borgarráðs sagði að mistök hefðu átt sér stað varðandi orðalag í viljayfirlýsingunni. Hann sagði málið vera í vinnslu og á þessu stigi ekkert sem hefði átt að fara í útboð. Ekki náðist í Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson borgarstjóra vegna málsins, og Björn Ingi vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar fréttastofa leitaði til hans í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×