Innlent

Mótmæla spilavíti Háskóla Íslands í Breiðholti

Íbúasamtök Breiðholts mótmæla því að Háskóli Íslands skuli ætla að setja upp spilavíti í hverfinu. Formaður samtakanna segir siðlaust að skólinn skuli þurfa að standa á bak við slíkan rekstur.

Í húsrými í verslanamiðstöðinni Mjódd þar sem áður var áfengisverslun er nú verið að innrétta spilasal. Fyrir áramót er ætlunin að þarna verði komnir klingjandi spilakassar þar sem fólki býðst að freista gæfunnar í fjárhættuspili til ágóða fyrir Háskóla Íslands. Íbúasamtök Breiðholts eru ekki hrifin og í verslunum í Mjódd hafa undirskriftalistar legið frammi og hafa um tvö þúsund manns ritað nafn sitt undir mótmæli.

Helgi Kristófersson, formaður Íbúasamtakanna Betra Breiðholt, segir svona spilavíti ekki eiga heima í hverfinu. Hann spyr um samvisku þeirra sem leyfa slíkan stað og samvisku ráðamanna Háskólans og segir það siðleysi að gera út á spilafíkn fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×