Innlent

Þrjú spennandi prófkjör á morgun

Nærri lætur að um fjórðungi þingsæta verði ráðstafað í þremur prófkjörum sem fram fara á morgun. Samfylkingin velur frambjóðendur sína í báðum Reykjavíkurkjördæmum og Sjálfstæðisflokkur sína menn í Suður - og Suðvesturkjördæmi.

Nú síðdegis höfðu á níunda hundrað manns kosið utankjörfundar í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmin en prófkjörið er opið flokksmönnum og þeim sem á kjörstað lýsa yfir stuðningi við flokkinn. Flokkurinn hefur nú átta þingsæti í kjördæmunum en alls keppa fimmtán manns um að hreppa efstu sæti listans. Enginn fer þó opinberlega gegn formanni flokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í efsta sætið, en meiri spenna er um annað sæti, milli Össurar Skarphéðinssonar, fyrrverandi formanns, og Jóhönnu Sigurðardóttur, sem síðast var í því sæti Mesta spennan snýst þó um það hvort og þá hvaða nýliðum takist að skáka sitjandi þingmönnum en meðal þeirra sem gera hríð að þeim er Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri. Í höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í Reykjavík höfðu 390 manns nú síðdegis kosið utankjörfundar 150 manns í suðurkjördæmi og 390 manns í suðvesturkjördæmi. Þar fer enginn gegn Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni flokksins, í efsta sætið. Flokkurinn fékk síðast fimm þingmenn í kjördæminu auk þess sem eitt þingsæti flyst í kjördæmið. Þrír efstu menn flokksins í kjördæminu í síðustu kosningum, Árni M. Mathiesen, Gunnar Birgisson og Sigríður Anna Þórðardóttir, eru ekki í framboði þar nú og því ljóst að nýliðar munu hreppa líkleg þingsæti á morgun en alls eru ellefu manns í framboði. Fjármálaráðherrann hefur hins vegar flutt sig yfir í suðurkjördæmið þar sem þrettán manns keppa, þeirra á meðal fjórir alþingismenn og tveir fyrrverandi alþingismenn en flokkurinn hefur nú þrjá þingmenn í kjördæminu. Kastljósið mun ekki síst beinast að því hvort Árna Johnsen takist að ná einu af efstu sætunum. Prófkjörum Samfylkingar í Reykjavík og Sjálfstæðisflokks í Suðvesturkjördæmi lýkur klukkan 18 annaðkvöld og verða fyrstu tölur birtar fljótlega eftir það á visir.is. Prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Suðurkjörkæmi lýkur klukkan 20 en fyrstu tölur verða birtar klukkan 22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×