Innlent

Lendingaræfing Airbus 380 í Keflavík gekk vel

Æfing Airbus-vélar 380 á Keflavíkurflugvelli í dag gekk mjög vel en vélin var að æfa lendingu í miklum hliðarvindi. Vélin kom í sérferð hingað til lands í morgun þegar vitað var að vindurinn yrði þetta mikill. Vélin er talsvert stærri en Boeing 757 vélarnar sem eru algengastar á Keflavíkurflugvelli. Hún vegur 560 tonn en 757 vélarnar vega aðeins 99 tonn.

Airbus 380-800 er stærsta farþegaþota heims, mun stærri en Boeing 747, jumbóþoturnar, og verður með sæti fyrir 555 til 853 farþega á tveimur hæðum. Framleiðslu vélarinnar hefur ítrekað seinkað, og nú er ekki búist við að fyrsta vélin fari í almennt farþegaflug fyrr en næsta haust. Fyrsta félagið sem fær Airbus 380 afhenta er Singapore Airlines.

Algengt er að nýjar vélar æfi lendingu og flugtak í hliðarvindi á Keflavíkurflugvelli og ekki var annað að sjá en að lending og flugtak hafi gengið vel.

7 voru í áhöfn vélarinnar í dag, 2 flugmenn og 5 tæknimenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×