Innlent

Skortur á hæfu starfsfólki helsta ógnunin

MYND/VIlhelm Gunnarsson

Helsta ógnunin í starfsumhverfi nýrra íslenskra tæknifyrirtækja, að mati stjórnenda, er skortur á hæfu starfsfólki. Mikill meirihluti þessara fyrirtækja eru þjónustufyrirtæki og um helmingur þeirra sérhæfir sig í tölvutækni.

Þessar niðurstöður komu fram í árlegu rannsóknarverkefni fyrir árið 2006 um stofnun, vöxt og viðgang tæknifyrirtækja á vegum Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans í Reykjavík í nýsköpunar og frumkvöðlafræðum. Alls tóku 103 fyrirtæki, stofnuð á árunum 2000-2005, þátt í rannsókninni. Rannsóknarverkefninu var hleypt af stokkunum í fyrra.

Nýsköpun er þessum fyrirtækjum mjög mikilvæg þar sem í tæplega 40% tilfella stendur sala á nýjum vörum eða þjónustum undir meira en 50% af veltu fyrirtækjanna. Meirihluti fyrirtækjanna er rekinn með hagnaði en jafnvel þeir sem ráku fyrirtæki sín með tapi árið 2005 gera ráð fyrir að reksturinn verði í jafnvægi eða skili hagnaði árið 2006.

Fleiri fyrirtæki fá nú utanaðkomandi fjármagn en árið áður og almennt gætir bjartsýni meðal stjórnenda. Ríflega tveir þriðju þeirra telja að starfsmönnum muni fjölga á árinu 2006 og rúm 75% þeirra gera ráð fyrir meiri veltu á þessu ári en því síðasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×