Innlent

Iðnaðarráðherra sagður segja ósatt

Iðnaðarráðherra var sakaður um að hafa sagt ósatt á Alþingi í síðustu viku þegar hann sagði engar skipulagsbreytingar fram undan hjá Landsvirkjun, en nú hefur verið ákveðið að RARIK og Orkubú Vestfjarða verði dótturfélög Landsvirkjunar.

Ráðherrann segir engar breytingar verða gerðar á samþykktum þessara félaga.

Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, kvað sér hljóðs um dagskrá þingsins í dag. Hann rifjaði upp að fyrir viku hefði iðnaðarráðherra svarað fyrirspurn frá sér um Landsvirkjun og fullyrt að ekki stæði til að renna RARI og Orkubúi Vestfjaðra inn í Landsvirkjun. Viku seinna tilkynni ráðherrann síðan að þessi fyrirtæki skuli fara undir Landsvirkjun. Jón spurði því nafna sinn Sigurðsson iðnaðarráðherra, hvort þessi ákvörðun hefði verið tekin í flýti, eða hvort ráðherrann hefði sagt ósatt á Alþingi fyrir viku.

Jón Sigurðsson að í orðum sínum fyrir viku hefði legið að það væri ekki í ráði í tengslum við þessar eignabreytingar að sameina RARIK, Orkubúið og Landsvirkjun. RARIK og Orkubúið yrðu áfram sérstök félög.

Mörður Árnason, þingmaður samfylkingarinnar, sagði að iðnaðarráðherra hefði sagt Alþingi ósatt fyrir viku. Það væri hörmulegt og vont fyrir ráðherrann. En það versta væri ef ráðherrann hefði sagt ósatt um þetta mál, hlytu menn að efast um heilindi hans varðandi önnur atriði.

Fyrirspyrjandinn, Jón Gunnarsson, var ekki ánægður með svör ráðherrans og spurði hvort hann gæti ekki svarað einfaldri spurningu með einföldu svari. Eða hvort hvort ráðherrann væri vísvitandi að blekkja Alþingi.

Umræðurnar urðu all heitar á köflum og í lokasvari sínu á þinginu í dag sagði iðnaðarráðherra: "Hér hefur orðið nokkur orðbólga. Stór orð hafa verið notuð af vafasömu tilefni." Ráðherrann sagði stór orð verða ódýr þegar þau væru ofnotuð. Þingmenn hefu sett fram bæði oftúlkanir og rangtúlkanir á orðum hans. Með því að gera RARIK og Orkubú Vestfjarða að dótturfélögum Landsvirkjunar væri eingöngu verið að breyta eignafyrirkomulagi Landsvirkjunar, en félögin störfuðu áfram eftir sínum fyrri samþykktum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×