Innlent

Frjálslyndir sakaðir um að dansa á línu rasismans á Alþingi

Þingmenn Frjálslynda flokksins héldu því fram á Alþingi í dag að Íslendingar væru farnir að missa vinnuna vegna þess að þeir væru ekki samkeppnishæfir við erlent vinnuafl. Þingmaður Samfylkingarinnar sagði þá dansa á línu rasismans.

Magnús Þór Hafsteinsson, sem hóf umræðu um fjölgun útlendinga á Íslandi, sagði alvarleg mistök hafa verið gerð síðastliðið vor þegar stjórnvöld ákváðu að opna á frjálst flæði vinnuafls frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins og nýta sér ekki heimildir til frekari frestunar. Fyrsti maí síðastliðið vor hefði verið svartur dagur í sögu þjóðarinnar. Síðan þá hefði erlent vinnuafl flætt stjórnlaust inn í landið. Stjórnlaust og alvarlegt ástand hefði skapast. Nú væri svo komið að Íslendingar væru farnir að missa vinnuna vegna þess að þeir væru ekki samkeppnishæfir við erlent vinnuafl sem væri tilbúið að vinna á lágmarkstöxtum eða jafnvel undir þeim. Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra sagði að Íslendingar hefðu þörf fyrir erlent vinnuafl. Umræða sú sem Magnús Þór hefði staðið fyrir undanfarna daga endurspeglaði ekki framlag erlends vinnuafls til uppbyggingar hérlendis. Skýrði ráðherra frá þeirri ákvörðun að íslensk stjórnvöld hygðust fresta því um tvö ár að leyfa vinnuafli frá nýjustu ríkjum Evrópusambandsins, Búlgaríu og Rúmenínu, að koma inn í landið. Guðrún Ögmundsdóttir sagði að þingmenn ættu að vera talsmenn skilnings og tala niður þá fordóma og dómhörku sem hér lægju undir niðri en ekki dansa á línu rasismans. Umræðan fór fram án æsinga en þó vakti athygli að þeir Magnús Þór og Steingrímur J. Sigfússon virtust takast harkalega á um málið í einkasamræðu við hliðarherbergi þingsalarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×