Innlent

Samfellt net virkjana og verksmiðja

Samfellt net virkjana og verksmiðja verður frá Keflavík að Landmannalaugum ef ráðist verður í fyrirhugaðar virkjanir í Þjórsá, segir Ómar Ragnarsson. Önnur og mikilvægari svæði séu hins vegar í hættu og náttúruverndarmenn þurfi að forgangsraða.

Ef álverið í Straumsvík verður stækkað gætu framkvæmdir við þrjár virkjanir í Þjórsá hafist strax á næsta ári með tilheyrandi uppistöðulónum. Undirbúningur er þegar hafinn og bóndanum á næsta bæ við eyjuna Árnes þar sem stífla Holtavirkjunar mun girða fyrir gljúfrið, var tilkynnt fyrir þremur vikum að hann þyrfti senn að flytja. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa ekki ályktað um þessar virkjanir en vaxandi óánægja er meðal heimamanna.

Ómar Ragnarsson veltir fyrir sér landslaginu sem mun blasa við erlendum ferðamönnum á hinu hreina Íslandi: "Það er íhugunarefni að ef að [virkjanirnar] verða að veruleika, þá kemur erlendur ferðamaður Íslands og keyrir frá upp í Landmannalaugar, fram hjá Heklu, þá er hann allan tímann á virkjanasvæði, þar sem eru virkjanir eða verksmiðjur."

Ómar spyr hvort skynsamlegt sé að fara í þessar virkjanir en hann ætlar ekki að beita sér gegn þeim. Hann segir ærin verkefni sem standi til að virkja í nágrenni Reykjavíkur og sem náttúruverndarsamtök ættu að beita sér gegn og nefnir Brennisteinsfjöll, Innstadal, Ölkelduháls og Grændal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×