Innlent

Tveimur skipum bjargað af strandstað

Rúmlega tvöhundruð tonna bátur og skuttogari slitnuðu frá bryggju í Hafnarfirði í morgun og rak út á höfnina.  Ekki er talið að miklar skemmdir hafi orðið á skipunum en hafsögumönnum og björgunarsveitarmönnum tókst að draga skipin af strandstað og koma þeim aftur að bryggju.

Skipin lágu utan á skuttogaranum Sonar þegar festarnar við Sonar slitnuðu uppúr klukkan átta í morgun. Skipin tvö ráku saman út á höfnina þar sem þau strönduðu á mjúkum botni. Ekki er því talið að miklar skemmdir hafi orðið á skipunum. Tveir hafsögubátar og bátar frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu voru sendir á strandstað. Hér sést hvernig hafsögubátarnir keyra upp að skipunum til að koma í veg fyrir að þau rækju frekar.

Hafsögumönnum tókst að koma smærra skipinu af strandstað um klukkan hálf ellefu en þá var togarinn enn á strandstað.

Minna skipið, Serena sem er um 250 tonna netabátur, kemur frá Skotlandi en er í eigu íslenskra aðila. Vel gekk að draga Serenu af strandstað en hún gekk einnig fyrir eigin vélarafli. Skuttogarinn heitir Ikkemut og er grænlenskur. Hann hefur legið við festar í Hafnarfjarðarhöfn í þrjú ár. Hafsögumönnum tókst að draga togarann af strandstað um klukkan þrjú í dag, þegar veður hafði lægt og sjávarborð hækkað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×