Innlent

Litlu munaði í baráttunni um fyrsta sætið

Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, varð í fyrsta sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, eftir spennandi kosningavöku í gærkvöldi og skaust þar með upp fyrir þrjá sitjandi þingmenn. Þingmennirnir Katrín Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir urðu í öðru og þriðja sæti en Valdimar Leó Friðriksson náði ekki kjöri í fyrstu átta sætin.

Mikil eftirvænting ríkti á kosningavöku Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi þar sem frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra komu saman á Fjörukránni í Hafnarfirði. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður, Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og Árni Páll Árnason, lögmaður sóttust öll eftir fyrsta sætinu. Spennan var því mikil þegar fyrstu tölur voru lesnar skömmu fyrir klukkan níu í gærkvöldi en þá hafði um þriðjungur atkvæða verið talinn.

Þá kom í ljós að Gunnar var í fyrsta sætinu, Katrín í öðru og Þórunn í því þriðja. Gunnar skýrir árangur sinn með því að kjósendur Samfylkingarinnar þekki til verka hennar í Hafnarfirði og viti að hún komi málum áfram.

Þegar tölur bárust öðru sinni var Gunnar fallinn úr fyrsta sætinu í það þriðja og Þórunn komin í það fyrsta. Þegar búið var að telja öll atkvæðin nema 400 utankjörfundaratkvæði, var Gunnar hins vegar kominn aftur í fyrsta sætið, en Þórunni vantaði bara 19 atkvæði til að ná sætinu af honum. Að lokum fór það síðan svo að Gunnar hélt fyrsta sætinu, með aðeins 46 atkvæða forskoti á Þórunni.

Þórunn segist sætta sig við úrslitin. Það sé hins vegar ljóst að hart hafi verið barist og blokkir myndast milli stóru sveitarfélaganna, Hafnarfjarðar og Kópavogs, en sjálf býr Þórunn í Garðabæ. Hún sagði mikið um hrepparíg í Suðvesturkjördæmi.

Katrín Júlíusdóttir fékk góða kosningu í annað sætið og var aldrei ógnað þar. Hún segist hafa ákveðið að keppa ekki um forystusætið þessu að þessu sinni og e.t.v. hefði það skilað henni þessum árangri í prófkjörinu og hún vonaði að henni tækist að reynast jafnaðarstefnunni vel.

Árni Páll Árnason lenti í fjórða sæti og Guðmundur Steingrímsson lenti í fimmta sætinu, sem verður að teljast baráttusæti flokksins, sem fékk fjóra þingmenn í kjördæminu í síðustu kosningum. Valdimar Leó Friðriksson, sem kom inn á þing þegar Guðmundur Árni Stefánsson hætti á þingi, náði ekki einu af átta efstu sætunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×