Innlent

Kjartan Gunnarsson hættir sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins

Kjartan Gunnarsson.
Kjartan Gunnarsson. MYND/NFS

Kjartan Gunnarsson er hættur sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Kjartan hefur verið framkvæmdastjóri flokksins síðustu 26 árin en hann tók við starfinu 1. október 1980. Kjartan tilkynnti um þetta á miðstjórnarfundi flokksins sem nú stendur yfir og tekur Andri við á næstu vikum.

Andri Óttarsson er 31 árs gamall. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2001. Andri hefur starfað hjá Lögmönnum við Austurvöll frá útskrift sinni og verið meðeigandi í stofunni frá 2004.

Andri hefur síðasta árið stundað meistaranám í mannréttindum við Raoul Wallenberg stofnunina og Háskólann í Lundi í Svíþjóð.

Í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum segir að Andri hafi gengt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hafi setið í stjórn Heimdallar og í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hann sitji nú í Útvarpsráði fyrir flokkinn og hefur hann komið að kosningastjórn víða um land.

Andri var oddviti Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, í stúdentaráði Háskóla Íslands 1998-1999. Hann var frá árinu 2002-2005 stjórnarformaður Félagsstofnunar stúdenta og hann hefur frá árinu 2005 verið ritstjóri Deiglunnar vefrits um þjóðmál.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×