Viðskipti innlent

Hlutafjárútboð í Marel í vikunni

Hörður Arnarson, forstjóri Marel.
Hörður Arnarson, forstjóri Marel. Mynd/E.Ól.
Hlutafjárútboð Marels fer fram á miðvikudag og fimmtudag þar sem 75 milljón hlutir verða boðnir til sölu. Þetta jafngildir rúmlega 31 prósents hlutafjáraukningu í Marel og er liður í því að styðja frekari vöxt félagsins.

Í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans í dag segir að Marel hafi á síðustu mánuðum keypt fyrirtæki á sama sviði, meðal annars danska matvælavélaframleiðandann Scanvægt, sem hafi verið helsti keppinautur Marels. Tvöfaldast velta félagsins vegna fyrirtækjakaupa á árinu og gera áætlanir ráð fyrir frekari ytri vexti.

Ennfremur segir í Vegvísinum að gengi bréfa Marel í útboðinu sé 74 krónur á hlut, sem er rúmum 5 prósentum undir meðaltali síðasta mánaðar en um 0,2 prósent yfir meðalverði síðustu 3 mánaða. Heildarsöluvirðið í útboðinu er 5,55 milljarðar króna.

Af 75 milljón hlutum sem boðnir verða út bjóðast hluthöfum 30 milljónir hluta í forgangsréttarútboði. Sami fjöldi hluta verður boðinn fagfjárfestum og í almennt útboð fara 15 milljónir hluta. Hver fjárfestir í almenna útboðinu getur skráð sig fyrir 10.000 hlutum eða 740.000 krónum að hámarki.

Marel mun gefa út lýsingu vegna hlutafjárhækkunarinnar eigi síðar en við upphaf útboðsins en fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hefur umsjón með útboðinu og sölutryggir bankinn útboðið að fullu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×