Erlent

Andstæðingur Chavez forseti í Perú

MYND/AP

Svarinn andstæðingur Hugos Chavez sigraði í forsetakosningum í Perú í gær. Hann segist ætla að bæta fyrir fyrri forsetatíð sína, þegar verðbólga rauk upp og landið rambaði á barmi gjaldþrots.

Þegar búið var að telja nærri níutíu prósent atkvæða hafði Garcia fengið um fimmtíu og fimm prósent og ljóst að sigurinn væri hans. Keppinauturinn og þjóðernissinninn Ollanta Humala hefur enda þegar viðurkennt ósigur í kosningunum. En það eru fleiri en Humala sem bölva úrslitum kosninganna.

Sigur Garcia er mikill ósigur fyrir Húgó Chaves, forseta Venesúela, sem studdi Humala með ráðum og dáð, enda hafði Humala lofað að fara að fordæmi Chaves og Evo Moralez í Bólívíu og hækka skatta á erlend fyrirtæki sem nýta sér náttúruauðlindir landsins. Chaves blandaði sér með beinum hætti í kosningabaráttuna í Perú og gagnrýndi Garcia harkalega í fjölmiðlum. Það er því kannski ekki skrýtið að þegar sigurinn var í höfn í gær sagði Garcia að þjóðin hefði hafnað tilraunum Chavesar til að reyna að koma á herskárri stjórn um gervalla Suður Ameríku.

Hann lofaði því jafnframt að bregðast ekki þjóð sinni og sagðist hafa lært af mistökunum. Hann var einmitt forseti landsins á árunum 1985-1990, þegar hann hröklaðist frá völdum. Þá var óðaverðbólga í landinu, víðtækur matarskortur og allt logaði í átökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×