Innlent

Keflavík "óhreinn" flugvöllur

MYND/Gunnar V. Andrésson

Evrópusambandið skilgreinir Keflavíkurflugvöll sem "óhreinan" flugvöll. Flugvélar sem fara héðan eru á tveimur evrópskum flugvöllum afgreiddar eins og þær séu að koma í fyrsta sinn inná Schengen svæðið.

Ástæðan fyrir þessum vandræðagangi eru annars vegar kritur á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um gæði vopnaleitar og hins vegar sú staðreynd að komu- og brottfararfarþegar blandast á Keflavíkurflugvelli. Evrópusambandið viðurkennir ekki vopnaleit sem gerð er á brottfararfarþegum í Bandaríkjunum. Þessir farþegar skipta um vél í Keflavík og blandast brottfararfarþegum sem er búið að gera á vopnaleit - og smita hjörðina, ef svo má segja, samkvæmt skilgreiningum Evrópusambandsins.

Vélarnar eru þá afgreiddar sem utanschengen vélar ytra og þá aftur á sama máta við komuna hingað aftur. Kastrupflugvöllur fór fyrir skömmu að afgreiða þessar vélar útfrá þessum forsendum og í gær bættist Schiphol flugvöllur í Amsterdam í hópinn. Samkvæmt heimildum NFS eru Íslendingar með þessari stöðu ekki að standa að fullu við skuldbindingar sínar í Schengen-samstarfinu.

Það þarf að bregðast við þessu í skyndi og mun lausnin vera sú að setja upp vopnaleitarbúnað í flugstöðinni til að leita á þeim farþegum sem koma frá Bandaríkjunum og eru á leið áfram til Evrópu. Með slíkum tækjakosti yrði Keflavíkur aftur "hreinn" en það mun taka að minnsta kosti nokkrar vikur að koma þessum tækjakosti fyrir, þjálfa mannskap á hann og fá heilbrigðisvottorð á völlinn frá Evrópusamabndinu.

Hvorki flugvallarstjórinn né sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli vildu tjá sig um málið og vísuðu á ráðuneyti sitt eða annað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×