Innlent

Björgunarsveitarmenn mótmæla kílómetragjaldi á Alþingi

Björgunarsveitarmenn safnast saman upp úr tíu í bílum sínum fyrir framan Alþingishúsið til að mótmæla frumvarpi um olíugjald, sem nú liggur fyrir þinginu til samþykktar í dag. Samkvæmt frumvarpinu þurfa björgunarsveitir að borga kílómetragjald af bílum sínum í hvert skipti sem farið er úr húsi til að bjarga nauðstöddum.

Í lagafrumvarpi um olíugjald og kílómetragjald sem liggur fyrir Alþingi á þessum síðasta degi sumarþings er lagt til að björgunarsveitir megi setja litaða dísilolíu á bíla sína en borgi í staðinn sérstakt kílómetragjald fyrir hvern ekinn kílómetra. Litaða dísilolían er ódýrari en venjuleg dísilolía og því til hagsbóta fyrir björgunarsveitirnar. En kílómetragjaldið bætist þar ofan á

Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir skrítið að á sama tíma og menn gefi eftir öll aðflutningsgjöld á ökutækjum björgunarsveita ætli þeir að skattleggja notkun þeirra um leið og björgunarmenn séu kallaðir út. Þá segir Jón kostnaðinn við að koma kílómetramælum fyrir í ökutækjunum hlaupa á milljónum þar sem björgunarsveitirnar vel á annað hundrað bíla. Landsbjargarmenn munu mæta á palla Alþingis og stilla ökutækjum sínum upp fyrir utan Alþingishúsið nú upp úr tíu til að mótmæla frumvarpinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×