Innlent

Segir laun ungra lækna hafa hækkað langmest

Læknanemar á fjórða og fimmta ári mættu ekki til vinnu sinnar á Landspítalanum í dag til þess að mótmæla því sem þeir kalla kjaraskerðingu af hálfu stjórnenda spítalans. Lækningaforstjórinn segir hins vegar að laun ungra lækna hafi hækkað langmest í nýgerðum kjarasamningum.

Læknanemarnir hafa hingað til fengið greidd laun sem hlutfall af launum læknakandídata auk 12 prósenta vaktaálags og greiðslu í 10 daga fyrir undirbúningsnámskeið fyrir vinnu á spítalanum.

Með nýjum kjarasamningi í vor hækkuðu laun læknakandídata og þar með laun læknanema. Þegar læknanemar leituðu eftir sömu ákvæðum og í fyrri samningum sögðust forstöðumenn spítalans ekki hafa fjármagn til þess. Þeir gætu aðeins greitt átta prósenta vaktaálag og borgað sjö daga af námskeiðinu.

Þetta sætta læknanemar sig ekki við. Erik Brynjar Eriksson, formaður Félags læknanema segir þá ekki vera að biðja um launahækkun heldur halda því sem þeir hafi haft. Þeir vilji ekki að bilið milli læknakandídata og læknanema aukist.

Læknanemar hafa sent yfirvöldum á spítalanum tilboð um að þeir haldi 12 prósenta vaktaálagi og fái greitt fyrir fimm daga af undirbúningsnámskeiðinu en því hafna spítalayfirvöld. Erik bendir á að fjarvera læknanemananna, sem eru 34, hafi áhrif á sex til sjö deildum og það séu deildir þar sem mannekla hafi verið fyrir.

Jóhannes M. Gunnarsson, lækningaforstjóri Landspítalans, segir að stjórnendur verði að fylgja ákveðnum reglum frá fjármálaráðuneytinu um laun læknanna og ekki verði lengra seilst. Ungir læknar hafi fengið langmestar hækkanir í kjarasamningum í vor og þeir verði ekki fyrir kjaraskerðingu. Aðspurður sér hann ekki neina leið opna í deilunni.

Formaður Félags læknanema segist vonast eftir áframhaldandi viðræðum en óvíst sé hvort það verði af þeim. Eins og staðan sé í kvöld mæti þeir ekki til vinnu á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×