Innlent

Dr. Agnar hlaut hvatningarverðlaunin

Agnar Helgason (úr myndasafni)
Agnar Helgason (úr myndasafni) MYND/Valgarður Gíslason

Agnar Helgason, doktor í mannfræði, hlaut í dag Hvatningarverðlaun Visinda- og tækniráðs. Forsætisráðherra veitti honum verðlaunin fyrir hönd valnefndarinnar.

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt árlega vísindamanni sem þykir hafa skarað fram úr snemma á ferlinum. Í ár hlaut þau dr. Agnar Helgason, líffræðilegur mannfræðingur sem starfar hjá Íslenskri erfðagreiningu og sem leiðbeinandi mastersnema í Félagsvísindadeild Háskóla Íslands.

Agnar hefur rannsakað uppruna landnámsfólksins á Íslandi með hvatberarannsóknum. Hann komst að því að um 80% landnámskarla komu frá Norðurlöndunum en um 62% landnámskvennanna frá Bretlandseyjum. Af þessum niðurstöðum dró hann þá ályktun að íslensku landnámsmennirnir hafi komið frá byggðum norrænna manna á Bretlandi, en ekki beint frá Norðurlöndunum.

Fimmtán voru tilnefndir til verðlaunanna, allt karlar. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra afhenti Agnari verðlaunin, tvær milljónir króna, og sagði starfið í valnefndinni hafa verið mjög ánægjulegt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×