Erlent

Útgöngubann í Kabúl

Frá átökunum í gær.
Frá átökunum í gær. Mynd/AP

Útgöngubann hefur verið sett á í Kabúl, höfuðborg Afganistans, vegna átakanna sem þar hafa geisað síðasta sólarhring. Átökin hófust eftir að bandarískur herbíll keyrði á fjölda farartækja á götum borgarinnar og varð fimm manns að bana. Niðurbæld reiði í garð hinna vestrænu herja sem nú hafa tögl og haldir í landinu braust út nær samstundis og hóf fjöldi fólks grjótkast, auk þess sem það kveikti í bílum. Að minnsta kosti sjö lágu í valnum eftir að annað hvort bandarískar eða afganskar hersveitir skutu á æstan múginn á einum stað í Kabúl. Hamid Karzai, forseti Afganistans, flutti sjónvarpsávarp í gær þar sem hann sakaði æsingamenn um að standa á bak við uppþotið og hvatti hann þjóð sína til að spyrna á móti þessum aðgerðum. Tíu Íslendingar eru í Kabúl en ekkert amar að þeim, að sögn utanríkisráðuneytisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×