Erlent

Róstur gegn útlendingum í Kabúl

Að minnsta kosti átta manns hafa látið lífið í uppþotum í Kabúl, höfuðborg Afganistans, sem beinast gegn útlendingum í borginni. Tíu Íslendingar eru í Kabúl en ekkert amar að þeim, að sögn utanríkisráðuneytisins. Martröð vestrænna starfsmanna í Afganistan varð að veruleika eftir að bandarískur herbíll keyrði á fjölda farartækja á götum borgarinnar og varð fimm manns að bana. Niðurbæld reiði í garð hinna vestrænu herja sem nú hafa tögl og haldir í landinu braust út nær samstundis. Herbíllinn sem var valdur að slysinu var í bílalest og fólk á staðnum réðst á hana með grjótkasti. Bandarískir hermenn skutu upp í loftið og afganskir hermenn komu þeim til aðstoðar. Annað hvort þeir, eða bandarísku hermennirnir, skutu síðan inn í mannfjöldan með þeim afleiðingum að fjöldi manns varð fyrir byssukúlunum. Myndatökumenn sem komu á vettvang voru barðir. Í Kabúl eru tíu Íslendingar, en ekkert amar að þeim. Ólafur Ragnar Ólafsson, ráðgjafi hjá NATO, segir að Íslendingarnir fari lítið um götur borgarinnar nema í erindagjörðum vegna starfs síns. Ólafur er eini Íslendingurinn sem býr í Kabúl borg, af þeim Íslendingum sem þarna eru á vegum íslenskra stjórnvalda. Hinir níu starfa fyrir Flugmálastjórn og NATO á Kabúl flugvelli, sem er fyrir utan borgina og er vel varinn. Þarna hafa verið íslenskir starfsmenn Rauða krossins á undanförnum árum, en þeir eru engir núna. Ráðist var á stöðvar bandarísku hjálparsamtakanna CARE, og eldur lagður að þeim. Nú síðdegis höfðu um tvö þúsund manns safnast saman í miðbæ Kabúl. Hundruð manna til viðbótar eru við gatnamót nálægt hinu víggirta bandaríska sendiráði í borginni og hrópa þar vígorð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×