Erlent

Einn blóðugasti dagurinn í Bagdad frá upphafi stríðsins

Hlúð að slösuðum á vígvellinum í Bagdad í dag.
Hlúð að slösuðum á vígvellinum í Bagdad í dag. MYND/AP

Senn er að kveldi kominn einn blóðugasti dagurinn í Bagdad í Írak frá upphafi stríðs í landinu fyrir rúmum þremur árum. Minnst þrjátíu og þrír hafa fallið og fjölmargir særst í röð sprenginga.

Flestar sprengjur sprungu í höfuðborginni Bagdad. Tíu féllu og tólf særðust þegar vegsprengja sprakk nálægt rútu rétt utan við borgina í morgun. Allir þeir sem féllu voru verkamenn sem var verið að flytja frá Bakúba að höfuðstöðvum samtaka sem ganga undir ýmsum nöfnum, þar á meðal Frelsisher Írans. Stjórnendum þeirra var vísað frá Íran eftir uppreisnina árið 1979 og hafa síðan barist gegn klerkastjórninni þar, lengst af með stuðningi Saddams Hússeins, fyrrverandi Íraksforseta.

Minnst sjö féllu og tuttugu særðust þegar bílsprengja sprakk nálægt markaði í Norður-Bagdad. Níu írakskir borgarar létu lífið þegar önnur bílsprengja sprakk nálægt einni helstu mosku súnnía í borginni. Sprengjunni hafi verið komið fyrir í bifreið sem lagt var nálægt veitingastað. Sprengjan var svo öflug að bíllinn er gjörónýtur.

Enn önnur bílsprengja sprakk við lögreglustöð í miðborg Bagdad. Einn lögreglumaður og tveir óbreyttir borgarar féllu. Önnur sprengja sprakk svo skömmu síðar rétt við aðra lögreglustöð í nágrenninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×