Erlent

Blóðugur morgunn í Kabúl

Hópur fólks sem tók þátt í átökunum í morgun hleypur undan skothtríð lögreglu í Kabúl.
Hópur fólks sem tók þátt í átökunum í morgun hleypur undan skothtríð lögreglu í Kabúl. MYND/AP

Til blóðugra átaka kom í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í morgun eftir að bandarískur herbíll lenti í hörðum árekstri við leigubíl og ók síðan á brott. Rúmlega fimmtíu skæruliðar Talíbana munu hafa fallið í loftárás Bandaríkjamanna á mosku í suðurhluta landsins í morgun.

Að minnsta kosti þrír létu lífið í árekstrinum í morgun. Fregnir hafa síðan borist af því að minnst einn hafi fallið í skotbardaga þegar til átaka kom. Óvíst er hver skaut hvern en bandarískar eða afganskar öryggissveitir munu hafa skotið á æstan mannfjöldann til að dreifa honum. Óeirðarseggir munu hafa brotist inn í búðir og látið greipar sópa og í einu tilviki dróu þeir erlendan ríkisborgara út úr bíl og börðu hann til óbóta.

Fjölmargir mótmælendur gengu í morgun að forsetahöllinni í miðborg Kabúl og gerðu hróp að Karzai forseta. Fregnir hafa einnig borist af skothríð nálægt bandaríska sendiráðinu í borginni og var starfsfólk þegar flutt þaðan í öruggt skjól. Eitthvað mun þó hafa dregið úr mótmælunum eftir því sem liðið hefur á morguninn.

Haft er eftir yfirmanni umferðarlögreglu í borginni að sést hafi til bandarískra hermanna þar sem þeir skutu á mótmælendur. Talsmaður Bandaríkjahers segir þó ekkert benda til þess en segir atburði morgunsins í rannsókn.

Rúmlega fimmtíu skæruliðar talíbana eru sagðir hafa fallið í loftárás Bandaríkjamanna á mosku í Suður-Afganistan í morgun. Þetta er haft eftir héraðsstjóra sem segir að fjölmargir leiðtogar hafi fallið í árásinni. Talíbanarnir komu saman til fundar í moskunni þegar látið var til skarar skríða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×