Erlent

Börnum haldið í Guantanamo

Bresk mannréttindasamtök staðhæfa að allt að sextíu börn undir átján ára aldri hafi verið látin dúsa í Guantanamo-fangabúðunum illræmdu og jafnvel sætt þar pyntingum.

Það er breska blaðið Independent on Sunday sem greinir frá þessu en upplýsingarnar hefur það frá mannréttindasamtökunum Reprieve. Þau byggja staðhæfingar sínar á gögnum bandaríska landvarnaráðuneytisins sem í síðasta mánuði skýrðu frá nöfnum fanganna í Guantanamo. Lögfræðingar samtakanna segja allt að sextíu þeirra hafi verið undir átján ára aldri þegar þeir voru fluttir í Guantanamo-fangelsið á Kúbu, þar af tíu sem voru 14-15 ára. Unglingarnir voru hafðir í einangrun og látnir sæta löngum yfirheyrslum, jafnvel pyntingum, að því er samtökin fullyrða. Til dæmis er einum fanganna gefið að sök að hafa tekið þátt í samsæri al-Kaída um sprengjutilræði í Lundúnum. Hann var hins vegar aðeins tólf ára á þeim tíma og bjó þá með foreldrum sínum í Sádi-Arabíu. Fangarnir sem um ræðir eru nú allir komnir yfir átján ára aldurinn. Búist er við að málið geti valdið titringi í samskiptum bandarískra og breskra stjórnvalda en aðeins eru fáeinir dagar síðan Goldsmith lávarður, lögfræðilegur ráðunautur bresku stjórnarinnar, skoraði á ríkisstjórn Bandaríkjanna að loka fangelsinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×