Erlent

Stöðugt finnast fleiri látnir

Ástandið er víða slæmt á Jövu.
Ástandið er víða slæmt á Jövu. MYND/AP

Nú er orðið ljóst að 4.600 hið minnsta hafi týnt lífi í jarðskjálftanum á Jövu í fyrrinótt. Hjálparstarf er í fullum gangi en hver mínúta er dýrmæt þar sem margir eru enn grafnir í rústum.

Hjálparsveitir hafa unnið sleitulaust að því að leita í rústum húsa á hamfarasvæðunum á Jövu að fólki, bæði lífs eða liðnu, alveg síðan skjálftinn, sem var af stærðinni 6,2, reið yfir í fyrrinótt. Þeir sem flýðu hús sín sneru flestir til síns heima í gær en víða blasti við alger eyðilegging. Fjöldi fólks svaf undir berum himni í nótt vegna ótta um að eftirskjálftar myndu eyðileggja það sem eftir stæði. Hjálpargögn hafa streymt til Yogyakarta en sem stendur er mest þörf á tjöldum, teppum og slíku fyrir þá sem ekki eiga í nein hús að venda. Sameinuðu þjóðirnar hafa sent lyf og aðrar nauðsynjar á vettvang og von er á vænum stuðningi frá ríkisstjórnum víða um heim. Ljóst er að vel á fjórða þúsund manns fórst í skjálftanum og 10-20 þúsund slösuðust. Íbúar bæjarins Bantul virðast hafa orðið verst allra úti en þar fórust að minnsta kosti 2.400 manns. Búist er við að enn fleiri lík muni finnast í dag þegar fregnir taka að berast frá afskekktari héruðum. Fornminjar nærri Yogyakarta hafa skemmst nokkuð í hræringunum, til dæmis Búddahofið Prambanan og gömlu konungshallirnar sem þarna er að finna. Jarðfræðingar segja að skjálftinn hafi aukið virkni í Merapi-fjalli sem gýs skammt þarna frá. Þá varð seint í nótt öflugur jarðskjálfti af stærðinni 6,7 skammt undan Kyrrahafseynni Tonga og annar á Papúa Nýju-Gíneu upp á 6,2. Ekki er vitað um manntjón þeim tengdum en flóðbylgjur eru ekki taldar hafa myndast í kjölfarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×