Erlent

Yfir 2.700 taldir látnir

Ekki stendur steinn yfir steini í Yogyakarta.
Ekki stendur steinn yfir steini í Yogyakarta. MYND/AP
Nú er talið að í það minnsta 2.700 manns hafi týnt lífi þegar öflugur jarðskjálfti reið yfir indónesísku eyna Jövu í nótt. Miklar skemmdir hafa orðið á húsum á skjálftasvæðinu en engrar flóðbylgju hefur þó orðið vart.

Jarðskjálftinn sem var af stærðinni 6,2 reið yfir þegar klukkan var sex mínútur í sex að staðartíma, eða laust fyrir ellefu í gærkvöld að íslenskum tíma. Upptök hans voru 25 kílómetra suður af hinni fornu borg Yogyakarta, sem er á vestanverðri Jövu, um 440 km suðaustur af Jakarta, höfuðborg Indónesíu. Að því er Sky-fréttastofan hermir hafa í það minnsta 2.727 týnt lífi. Að líkindum hafa þó fleiri látist því þúsundir manna eru alvarlega slasaðar og þá eru þeir ótaldir sem fastir eru undir rústum húsa sinna.

Erfitt er um aðdrætti á þessum slóðum og læknar sagðir allt of fáir til að ráða við ástandið. Að sögn sjónarvotta stendur ekki steinn yfir steini í stórum hluta borgarinnar og eins hafa smærri bæir í nágrannahéruðum hennar orðið mjög illa úti. Rafmagnslaust er á svæðinu og öll fjarskipti liggja niðri.

Eldfjallið Merapi er skammt frá Yogyakarta en ekki er talið að eldsumbrotin í því hafi valdið skjálftanum. Hann er aftur á móti talinn hafa aukið virkni í fjallinu. Þótt skjálftamiðjan sé skammt frá sjó hefur engrar flóðbylgju orðið vart í Indlandshafi í kjölfarið.

Indónesía er stundum kölluð "Eldhringurinn" þar sem eldgos og jarðskjálftar eru afar algengt á þessum slóðum. Skemmst er að minnast jarðskjálftans mikla á öðrum degi jóla 2004 og flóðbylgjunnar sem fylgdi á eftir en þá fórust meira en 200.000 manns.



 

 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×