Erlent

Þrír palestínskir unglingspiltar létust á Gaza

Frá vettvangi sprengingarinnar í dag.
Frá vettvangi sprengingarinnar í dag. MYND/AP

Þrír palestínskir unglingspiltar létust þegar þeir voru að fikta við sprengiefni á Gaza í dag. Þá særðust þrjár erlendar konur í átökum á Vesturbakkanum.

Piltarnir sem létust höfðu fundið ónotuð skothylki úr ísraelskum skriðdrekum og haft þau á brott með sér í bænum Beit Lahiya á norðurhluta Gaza. Að sögn ættingja þeirra höfðu þeir svo reynt að opna hylkin vegna sprengiefnanna innan í þeim sem hæglega er hægt að selja á Gaza. Það vildi hins vegar ekki betur til en svo að eitt hylkið sprakk í höndunum á þeim með fyrrgreindum afleiðingum. Piltarnir voru á aldrinum 15-19 ára.

Vikuleg mótmæli Palestínumanna gegn aðskilnaðarmúrnum, sem Ísraelsmenn hafa verið að reisa undanfarin misseri, fóru fram nærri bænum Bilin, skammt frá Ramallah, á Vesturbakkanum í dag. Mikill hiti færðist í leikinn þegar mótmælendur reyndu að komast yfir afgirt svæði nærri múrnum. Skutu her- og lögreglumenn meðal annars gúmmíkúlum og táragasi að mótmælendum.

Fjórir særðust í átökunum, einn ísraelskur hermaður og þrjár erlendar konur. Meiðsl kvennanna, sem eru frá Svíþjóð, Bandaríkjunum og Þýskalandi, eru ekki alvarleg, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Hlúð var að meiðslum tveggja þeirra á staðnum en sú bandaríska var flutt á sjúkrahús til aðhlynningar eftir að hafa fengið táragashylki í höfuðið. Hún var útskrifuð af spítalanum síðar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×