Erlent

Bush og Blair viðurkenna mistök

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands er staddur í Washington til skrafs og ráðagerða við Bush vin sinn Bandaríkjaforseta. Blair er nýkominn frá Írak þar sem hann hitti þarlenda ráðamenn og í gær greindi hann Bush frá því sem hæst bar í þeirri heimsókn, til dæmis þeirri skoðun Nuri al-Malikis forsætisráðherra um að Írakar væru sjálfir í stakk búnir til að halda uppi lögum og reglu eftir hálft annað ár. Rúm þrjú ár eru liðin frá innrásinni í Írak og virðist ekkert lát vera á vargöldinni þar. Leiðtogarnir tveir eru því loks farnir að horfast í augu við að mistök hafi verið gerð.

Bush viðurkenndi jafnframt að rangar ákvarðanir hafi verið teknar við uppbyggingu Íraks og ýmislegt hefði betur verið látið ósagt.

Báðir leiðtogarnir ítrekuðu að þrátt fyrir að svo margt hafi farið úrskeiðis stæði ekki til að kalla erlenda setuliðið heim fyrr en Írakar hefðu burði til að sjá sjálfir um löggæsluna. Hvenær það verður vildu þeir hins vegar ekki svara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×