Erlent

Kulajeff fékk ævilangt fangelsi

Dómstóll í Rússlandi dæmdi í morgun tsjetsjenskan hryðjuverkamann í ævilangt fangelsi fyrir aðild sína að gíslatökunni í barnaskólanum í Beslan í september 2004. 330 létust í þeim hildarleik, röskur helmingur þeirra börn.

Fáir atburðir hafa vakið jafn hörð viðbrögð á síðustu árum og harmleikurinn í Beslan í Norður-Ossetíu í septemerbyrjun 2004. Þá réðist hópur tsjetsjenskra aðskilnaðarsinna inn í barnaskóla bæjarins og tóku þar rúmlega ellefu hundruð gísla. Þriggja daga löngu umsátrinu lauk þegar rússneskar hersveitir réðust inn í skólann eftir að sprengja sprakk þar. 331 lést í blóðbaðinu sem fylgdi í kjölfarið, þar af 186 börn. Í morgun var dómur kveðinn upp yfir eina eftirlifandi gíslatökumanninum, Nur-Pashi Kulajeff. Rétturinn taldi sýnt að hann bæri ábyrgð á öllum dauðsföllunum og því bæri að dæma hann í ævilangt fangelsi. Dómarinn bætti því við að réttast væri að taka hann af lífi en þar sem dauðarefsingum er ekki beitt í Rússlandi væri það ekki hægt. Margir ástvina þeirra sem týndu lífi í Beslan fylgdust með dómsuppkvaðningunni og geðshræring þeirra var að vonum mikil.

Mæður fórnarlambanna hafa allt frá því að fjöldamorðin voru framin gagnrýnt rússnesk stjórnvöld harðlega, annars vegar fyrir að að koma ekki í veg fyrir að svo stór hópur hryðjuverkamanna gæti flutt vopn og sprengjur í skólann, hins vegar fyrir harkalega framgöngu hermannanna sem þær telja að hafi frekar unnið skaða heldur en gagn. Þótt Nur-Pashi Kulajeff eigi eflaust sinn þátt í að svo hörmulega fór telja margir að rússnesk stjórnvöld noti réttarhöldin yfir honum til að beina athyglinni frá þeirra eigin mistökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×