Erlent

Ástralskir sérsveitarmenn til Austur-Tímor

MYND/AP

Ástralskir sérsveitamenn eru komnir til Austur-Tímor til að koma á röð og reglu eftir uppreisn hermanna undanfarna daga.

Þrettán hundruð þrautþjálfaðir ástralskir sérsveitamenn eru komnir til höfuðborgarinnar Dili til þess að kveða niður uppreisn hermanna í nýjasta sjálfstæða ríki í heimi, Austur-Tímor. Undanfarna tvo mánuði hefur órói verið mikill á Austur-Tímor en síðustu daga hefur soðið upp úr. Sex hafa látið lífið, að minnsta kosti. Ástralíumenn á eyjunni flýja hver sem betur getur.

Landið hlaut sjálfstæði frá Indónesíu eftir þrjátíu ára baráttu gegn hernámi Indónesíumanna. Þarna búa tæplega milljón manns. Flugþjónusta er enn við flugvöllinn í Dili og Bandaríkjastjórn hefur skipað bandarískum ríkisborgurum að hafa sig á brott. Uppreisnarmenn eru í hlíðunum í kringum Dili og þaðan berast skot og sjá má reykjarmökk leggja frá brennandi bílum og húsum. Þúsundir manna hafa leitað skjóls í sendiráðum og guðshúsum. Uppreisnin hófst þegar helmingur hersins var rekinn fyrir að fara í verkfall. Hermennirnir voru að mótmæla kjörum og meintri mismunun. En stjórnarandstaðan hefur nýtt sér ástandið. SMS skeyti sem ala á ótta berast milli manna eins og eldur í sinu og gera ástandið enn eldfimara. Stjórnin á Austur Tímor fagnar því ákaflega komu áströlsku sérsveitamannanna til landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×