Erlent

Rasmussen heimsækir Írak

Forsætisráðherra Danmerkur heimsótti Írak í dag - en á meðan var ekkert lát á ofbeldi í landinu. Anders Fogh Rasmussen er annar þjóðarleiðtoginn sem heimsækir Írak eftir valdatöku nýs forsætisráðherra, Al Malikis. Anders Fogh hóf ferðina í Basra, þar sem 530 danskir hermenn eru staðsettir. Í Bagdad lenti forsætisráðherrann í sandbyl, sem varð þess valdandi að hann þurfti að fara í bíl í gegnum rauða svæðið, sem er svo kallað vegna þess hversu það er hættulegt. Á sama tíma virðist ekkert lát á ofbeldi í Írak. Þrír menn særðust þegar vegsprengja sprakk austur af Bagdad. Bandarískir hermenn sögðust í dag hafa fellt og handtekið nokkra hryðjuverkamenn í bænum Samarra og að dóttir eins þeirra hafi orðið fyrir skoti. Frænka stúlkunnar segir að hermennirnir hafi skotið stúlkuna. Á síðustu vikum hafa tugir manna látið lífið í átökum og ofbeldisverkum á hverjum degi í Írak. Litla stúlkan í Samarra var einn þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×