Erlent

Ferðamenn hvattir til að yfirgefa Austur-Tímor

Stjórnarhermenn verjast nú vígamönnum úr röðum fyrrverandi hermanna.
Stjórnarhermenn verjast nú vígamönnum úr röðum fyrrverandi hermanna. MYND/AP

Skotbardagar geisa nú í Austur-Tímor annan daginn í röð. Erlendum ferðamönnum er nú ráðlagt að yfirgefa landið í skyndi vegna vaxandi ólgu í landinu. Forseti Austur-Tímor hét því í morgun að reyna að handsama þá sem stæðu fyrir ofbeldinu en skotbardagarnir nú hafa orðið tveimur að bana.

Stjórnvöld íhuga nú tilboð frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi um hjálp við að koma aftur á röð og reglu í landinu. Óeirðir og ofbeldisverk hafa færst í vöxt í landinu síðan tæplega sexhundruð hermenn voru reknir úr stjórnarhernum fyrir að fara í verkfall til að mótmæla því sem þeir kölluðu mismunun og ójafnrétti í hernum. Sumir þeirra hafa nú slegið upp búðum fyrir utan höfuðborgina Dili og hóta skærum, verði þeir ekki teknir inn í herinn á ný.

Austur-Tímorar samþykktu sjálfstæði frá Indónesíu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1999 og er því yngsta sjálfstæða landið sem aðild á að Sameinuðu þjóðunum. Mannréttindasamtök segja allt að 200 þúsund hafa látið lífið í ofbeldisverkum Indónesa á meðan á 24 ára hersetu þeirra í Austur-Tímor stóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×