Erlent

Ræða viðbrögð við kjarnorkuáætlun Írans

Þúsundir Asera mótmæltu myndbirtingum sem þeir sögðu níð gegn aserska þjóðflokknum.
Þúsundir Asera mótmæltu myndbirtingum sem þeir sögðu níð gegn aserska þjóðflokknum.

Löndin fimm sem hafa fastasetu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna funda í dag með fulltrúum Þýskalands til að ræða viðbrögð við fastheldni Írana við kjarnorkuáætlun sína. Íbúar í Teheran biðja um að hugsanlegar refsiaðgerðir bitni ekki á almennum borgurum.

Valdamestu lönd í Evrópu eru að leggja lokahönd á tillögu að aðgerðum gegn Íran, sem lögð verður fram í öryggisráðinu, ef Íranir þráast við að auðga úran. Tillagan er málamiðlun sem Rússar og Kínverjar eiga að geta sætt sig við, en þessi lönd hafa hingað til ekki viljað beita Írani refsiaðgerðum.

Í tillögunni er hætt við að hóta árásum ef Íranir halda sig við kjarnorkuáætlun sína, en tillagan er hluti af stærra tilboði til Írana sem er ætlað að lokka þá til fylgispektar við Vesturveldin.

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans sakar hins vegar Bandaríkin og þau lönd sem fylgja þeim að málum um að kynda meðvitað undir kynþáttaóeirðum og ójafnvægi í Íran. Í ræðu sem hann hélt í hafnarborginni Khorramshahr í morgun sagði hann óvini Írans vita fullvel að ómögulegt væri fyrir þá að skaða Íran utanfrá.

Ahmadinejad lokaði í gær dagblaði og rak ritstjóra þess fyrir að birta skopmynd sem snerist gegn Aserum í Norðvestur-Íran sem vakti hörð viðbrögð meðal Asera. Þetta var í fyrsta skipti síðan forsetinn komst til valda að dagblaði er lokað og þykir það benda til að stjórnvöld í Íran séu vör um sig og telji Bandaríkin muni reyna að kynda til ófriðar meðal minnihlutahópa í Íran.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×