Erlent

Auglýstu störf á Íslandi og í Svíþjóð sem ekki voru fyrir hendi

Hátt í þrjátíu manns á Filippseyjum hafa höfðað mál á hendur fyrirtæki þar í landi fyrir að auglýsa störf á Íslandi og í Svíþjóð sem ekki voru fyrir hendi. Talið er að fyrirtækið hafi haft nærri níu milljónir króna af fólkinu með svikastarfsemi.

Fyrirtækið sem um ræðir nefnist Cebu Manpower Corporation. Það auglýsti í fyrra að það gæti fundið störf fyrir fólk í verksmiðjum í Svíþjóð og á Íslandi og krafði umsækjendur um störfin um greiðslur til þess að geta gengið frá málunum. Þær námu á bilinu 100 til 550 þúsund krónum. Þegar tíu mánuðir voru liðnir frá því að greiðslurnar voru innheimtar án þess að nokkuð hefði frést af vinnunni fór fólkið að grennslast fyrir um málið. Þá komst það að því að engin verksmiðjustörf voru í boði hér á landi og heldur ekki í Svíþjóð.

Tuttugu sjö Filippseyingar hafa því höfðað mál á hendur fyrirtækinu vegna fjársvika, en talið er að Cebu Manpower hafi haft um níu milljónir upp úr krafsinu. Búist er við að fleiri leiti réttar síns og að talan eigi eftir að hækka.

Hjá Vinnumálastofnun fengust þær upplýsingar að engin gögn væru um að fyrirtækið hefði starfað hér á landi eða reynt að koma fólki til landsins. Hjá Alþjóðahúsinu var svipuð svör að fá en þar sögðust menn ekki hafa heyrt af Filippseyingum sem farið hefðu í fýluferð til Íslands vegna fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×