Erlent

Nýtt bóluefni við fuglaflensu

MYND/AP

Vísindamenn hafa þróað bóluefni sem gæti orðið handhægt tæki í baráttunni við H5N1 fuglaflensu. Þeir segja þó rétt að geta þess að efnið gagnist mannfólkinu ekki til að forðast smit.

Það voru tvö teymi vísindamanna sem gerðu þá uppgötvun að ef umræddu bóluefni væri blandað saman við annað algengt bóluefni gæti það varið alifugla gegn þessu hættulega afbrigði sjúkdómsins. Auðvelt mun vera að framleiða bóluefnið og hægt að spreyja því á fuglana. Vísindamennirnir segja þó rétt að leggja áherslu á að þetta er bóluefni fyrir fugla.

Eldra bóluefnið sem um ræðir hefur verið notað gegn svokölluð Newcastle-veikinni sem, ólíkt H5N1 afbrigði fuglaflensu, smitast ekki yfir í fólk. Fuglaflensan hefur náð að breiðast hratt út meðal fugla og borist frá Austur-Asíu til annarra heimshluta, svo sem Evrópu og Afríku. Sérfræðingar segja að á endanum verði þetta afbrigði flensunnar búið að skjóta rótum meðal fugla um allan heim verði ekkert að gert.

Þurft herfur að farga mörg hundruð milljónum fugla víða um heim vegna flensunnar og hefur hún kostað 123 manns lífið. Sérfræðingar óttast að þetta afbrigiði flensunnar kunni að stökkbreytast og valda heimsfaraldri. Ýmis bóluefni sem nú eru í notkun valda því að fuglar eru smitberar þó þeir virðist ekki sýktir og því hafa mörg ríki einnig bannað innflutning á fuglaafurðum þó fuglarnir hafi verið bólusettir.

Nýja bóluefni verður auðvelt að greina í blóðprufum og kemur í veg fyrir að sýktir fuglar smiti. Annað teymið segja mikilvægt að nota þessar niðurstöður sem grunn rannsókna á bóluefni fyrir mannfólkið. Hinn hópurinn segir það þó líklegt til að skila árangri þar sem fólk smitist ekki að Newcastle-veiki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×