Erlent

Lordi-torg í Rovaniemi

MYND/AP

Finnar ráða sér vart af kæti yfir árangri finnsku þungarokkshljómsveitarinnar Lordi í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva um helgina. Borgaryfirvöld í Rovaniemi, heimabæ hljómsveitarinnar, hafa ákveðið að nefna torg í miðri borginni í höfuðið á henni.

Þetta er í fyrsta sinn sem Finnar vinna sigur í þessari keppni og hafa þeir oft hlotið fremur háðuglega útreið og jafnan rekið lestina. Það má því segja að Finnar hafi fengið uppreisn æru, og vel það, þegar skrímslarokkssveitin Lordi fór með sigur af hólmi í keppninni í Aþenu á laugardaginn, og það með fáheyrðum fjölda stiga sem voru nærri því 300.

Finnar hafa fagnað árangrinum en voru margir hverjir með nokkrar áhyggjur af því hvað áhrif flutningur Lordanna á laginu Hard Rock Hallelujah myndi hafa á ímynd landsins. Bæði Tarja Halonen, forseti Finnlands, og Matti Vanhanen, forsætisráðherra, hafa óskað rokkurunum til hamingju með árangurinn.

Borgarstjórinn í Rovaniemi í Lapplandi sagði í dag að borgaryfirvöld vildu heiðra þessa frægu syni sína með því að nefna torg í miðborginni eftir hljómsveitinni. Torgið verður hluti af nýrri borgarmynd sem er verið að skipuleggja en auk Lordanna státar Rovaniemi sig af raunverulegu heimili jólasveinsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×