Erlent

Sambandssinnar vilja endurtalningu

MYND/AP

Sambandssinnar í Svarfjallalandi krefjast þess að atkvæði verði talin að nýju í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem Svartfellingar samþykktu með naumum meirihluta í gær að segja sig úr lögum við Serba. Kosningaeftirlitsmenn segja ekkert við framkvæmd kosninganna sem þeir geri athugasemd við.

Munurinn í atkvæðagreiðslunni í gær gat tæpast verið minni. Samkvæmt bráðabirgðaúrslitum voru 55,4% þeirra sem tóku þátt fylgjandi því að Svartfjallaland sliti sambandinu við Serbíu. Kjörsókn var góð eða 86,3%.

Svartfjallaland varð hluti af Júgóslavíu við stofnun hennar árið 1918 og hélt svo sambandinu við Serbíu eftir að Júgóslavíu liðaðist í sundur á sínum tíma. Á síðustu árum hefur hins vegar æ fleiri Svartfellingum þótt sambandið við Serbíu vera dragbítur á framfarir í landinu og hafa þeir krafist sjálfstæðis.

Málið hefur þó skipað Svarfellingum í tvær fylkingar. Sambandssinnar segja að aðskilnaðurinn skaði efnahag- og stjórnmálaleg tengsl við Serba og kljúfa fjölskyldur.

Í yfirlýsingu frá bandalagi sambandssinna segir að fara þurfi aftur yfir kjörseðla á öllum kjörstöðum og telja á ný. Auk þess telja þeir rétt að bera saman undirskrift fólks á kjörskrá við undirskrift á skilríkjum þar sem sambandssinnar óttast að brögð hafi verið í tafli.

Einn kosningaeftirlitsmaður á vegum Evrópuþingsins sagði hins vegar í samtali við BBC í dag að hann hefði ekkert að athuga við framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×