Erlent

Svartfjallaland sjálfstætt ríki

MYND/AP

Svartfellingar samþykktu sjálfstæði frá Serbíu með naumum meirihluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. Serbía og Svartfjallaland eru ein eftir í ríkjasambandinu sem eftir er af fyrrverandi Júgóslavíu.

Kjörstjórn í Svartfjallalandi hefur staðfest að 55,4% þeirra sem þátt tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær hafi greitt atkvæði með aðskilnaði frá Serbíu. Kjörsókn var rúm 86%. Milo Djukanovic, forsætisráðherra Svartfjallalands, lýsti í nótt yfir sigri aðskilnaðarsinna í kosningum. Mikil fagnaðarlæti brutust út víða í Svartfjallalandi í nótt þegar niðurstaðan varð ljós. Ekki var þó að finna sömu fagnaðarlætin í Serbíu en úrslitin tákna einnig að Serbía verði sjálfstætt ríki.

Evrópusambandið setti það sem skilyrði fyrir viðurkenningu nýs ríkis að 55% kjósenda að minnsta kosti myndu greiða með sambandsslitum. Það var því naumt á því að aðskilnaður yrði samþykktur. Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, tilkynnti í morgun að Evrópusambandið muni virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hann vildi að öðru leyti lítið tjá sig um niðurstöðuna en óskaði Svartfellingum til hamingju með góða þátttöku í kosningunum og sagði hana bera merki um þroska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×