Erlent

Allt erlent herlið frá Írak árið 2010

MYND/AP

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, kom til Bagdad í morgun. Með heimsókn sinni hyggst Blair sýna stuðning sinn við nýja ríkisstjórn Íraka og ræða veru breska herliðsins í Írak.

Blair, er fyrsti heimsleiðtoginn, sem kemur til Íraks eftir að ný ríkisstjórn tók formlega við völdum í landinu á laugardaginn síðastliðinn. Blair hitti Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, á fundi þar sem vera breskra herliða í Írak var meðal annars rædd.

Talsmenn bresku ríkisstjórnarinnar segja veru fjölþjóðaherlið í Írak koma til með að breytast í valdatíð nýrrar ríkisstjórnar í landinu. Embættismenn segja að stefnt sé að því að allir erlendir hermenn verði farnir frá Írak innan fjöggurra ára eða árið 2010. Þetta er í fyrsta sinn sem leiðtogi annars af ríkjunum tveimur, Bandaríkjunum og Bretlandi, sem voru helstu bandamenn í árásinni á Írak árið 2003, gefur út dagsetningu um hvenær erlent herlið verði að fullu farið frá Írak. Blair sagði stríðið hafa verið erfiðara og lengra en nokkur hafi búist við en nú væri hins vegar að hefjast nýtt tímabil hjá Írökum.

Búist er við því að á næstu mánuðum muni Írakar taka við að minnsta kosti einni eftirlitsstöð sem Bretar hafa stýrt en með þeim breytingum ættu Bretar að geta sent einhverja breska hermenn heim frá Írak. Nuri al-Malaki, forsætisráðherra Íraka, sagði á fundinum að hann teldi að Írakar gætu tekið við af fjölþjóðaherliðinu á flestum svæðum í Írak fyrir árslok.

Á sama tíma og Blair kom til Bagdad í morgun sprungu tvær bílsprengjur í úthverfum borgarinnar og urðu þær níu manns að bana. Þær eru til marks um þá ólgu sem enn er í landinu og ný ríkisstjórn þarf að takast á við. Fimm mánuði tók að mynda ríkisstjórnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×