Innlent

Þúsundir Íslendinga búa við sára fátækt

Ný könnun Rauða Krossins á fátækt sýnir svo ekki verður um villst að þeim hópum sem búa við sár kjör hér á landi hefur fjölgað á undanförnum árum. Forseti Íslands segir það með öllu óásættanlegt að þúsundir Íslendinga búi við sára fátækt alla daga ársins.

Rauði Kross Íslands kynnti í morgun nýja könnun á fátækt í íslensku samfélagi. Samkvæmt könnuninni standa sjö hópar verst að vígi: Öryrkjar, einstæðar mæður, innflytjendur, aldraðir, einstæðir karlar, geðfatlaðir og börn sem búa við erfiðar aðstæður.

Niðurstöður skýrslunnar byggja höfundar á 57 viðtölum við álitsgjafa víðs vegar af landinu, sem starfa í nánum tengslum við bágstadda hópa alla daga. Nær allir voru sammála um að fjöldi Íslendinga byggi við ómannsæmandi aðstæður

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, einn skýrsluhöfunda segir aðeins einn til tvo viðmælendur af fimmtíu og sjö neitað því að fátækt væri til staðar hérlendis. Margir telji raunar að á bilinu 7-10% Íslendinga séu fátækir.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands segir að margir átti sig ef til vill ekki á því að fátækt sé ekki bara til staðar um aðventuna, heldur allan ársins hring. Þúsundir Íslendinga búi við sára fátækt alla daga ársins.

Forsetinn bendir á að hann hafi bent á þetta vandamál áður, en sumir hafi ekki viljað hlusta. Hann vonast til að menn skelli ekki skollaeyrum við úttekt Rauða Krossins, sem sýni að ekki hafi verið nóg að gert á undanförnum árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×